154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:30]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður gerir ráð fyrir í sinni fyrirspurn er ég þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu máli að viðhalda og efla sóknaráætlanir. Það á nú reyndar eins og ýmislegt gott rætur að rekja til samstarfs okkar hv. þingmanns í ríkisstjórn 2009–2013, að þessar sóknaráætlanir hófu göngu sína og hafa ítrekað sýnt gildi sitt. Það er ekki síst vegna þess að þarna er verið að kalla eftir frumkvæði og áhuga íbúanna sjálfra í sínu umhverfi og fyrst og fremst verið að horfa til nærsamfélagsins. Það kemur raunar fram í stjórnarsáttmálanum að unnið verði að eflingu sóknaráætlananna. Það á eftir að útfæra nánar hvert framlag ríkisins verður á árinu 2025 en við gætum séð fyrir okkur að fjölga þessum verkefnum og laða fleiri ráðuneyti til samstarfs og kalla meira eftir frumkvæði íbúa og aðkomu þeirra en við höfum getað gert. Sóknaráætlanir eru í grunninn mjög mikilvægur þáttur í nærsamfélaginu, uppbyggingu þess og lýðræðisnálgun. Það að byggja á forgangsröðun heimafólks og þeirra áherslum er líka ákveðin valdefling fyrir nærsamfélagið og íbúa þess. Ég mun því a.m.k. í minni aðkomu leggja þær meginlínur þegar því verkefni vindur fram.